Sjálfboðaliðar opna kirkju

23. júlí 2019

Sjálfboðaliðar opna kirkju

Víkurkirkja - falleg kirkja á fögrum stað

Kirkjuhús eru menningarstaðir í hverju byggðarlagi, sveit og bæ. Oft höfuðprýði byggðarinnar sem heimamenn eru stoltir af. Geyma sögu byggðar og fólks, trú og viðhorf, og margvísleg menningarverðmæti innan húss sem utan. Altaristöflur segja sína sögu, kirkjugripir og minningarmörk í kirkjugörðum. Þarna er sögu fólksins að finna í hnotskurn.

Ferðamenn koma iðulega að lokuðum kirkjum. Skyggnast þá inn um glugga, taka myndir og rölta um. Margar sóknir eru fámennar og hafa ekki tök á að hafa kirkjurnar opnar og greiða fyrir vörslu þeirra.
En nú hafa öflugir sjálfboðaliðar í Vík í Mýrdal látið til sín taka og standa vaktina í sinni fallegu og reisulegu kirkju sem teiknuð var af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Kirkjan þeirra rís hátt yfir byggðina og er sem vökult auga yfir henni.

Tíðindamaður kirkjan.is ræddi við Önnu Björnsdóttur, kennara, sem er í forsvari fyrir sjálfboðaliðana. Hún segir ástæðu þess að sjálfboðaliðar hafi lagt á ráðin um að taka vaktir í kirkjunni vera þá að fjöldi ferðamanna hafi farið upp á Skerið en svo er staðurinn kallaður þar sem kirkjan stendur. Þeir hafi ýmist komið í rútum, bílum eða gangandi. Þaðan sé gott útsýni yfir þorpið og myndatökur því vinsælar. Opin kirkja sé aukin þjónusta við ferðalanga þar sem þeir geta virt fyrir sér hið fagra guðshús og þá sögu byggðarinnar sem það geymir.

Anna segir að í fyrra hafi hugmynd komið upp um að opna kirkjuna fyrir gestum og gangandi og skipta með sér vöktum, fjóra tíma á dag í rúman mánuð, júlí til byrjun ágústmánaðar. Hugmyndinni var hrundið úr vör og tókst vel til svo ákveðið var að halda áfram í sumar. Kirkjan verður opin til 5. ágúst.

Þegar inn í kirkjuna er komið berst ómur af kirkjulegri tónlist og yfir öllu er helgiblær.

Á hverjum degi kemur fjöldi ferðamanna til að skoða kirkjuna, aldrei undir eitthundrað en flestir hafa þeir verið á einum degi hátt í þrjú hundruð. Tölur eru nákvæmar því sjálfboðaliðarnir bóka hvern þann er stígur fæti inn fyrir dyr. Sjálfboðaliðarnir eru þrír karlar og fimm konur, standa vaktina í tvo tíma í senn.

„Góð hugmynd kveikir alltaf í öðrum sem vilja styrkja gott málefni. Svo hefur og verið með sjálfboðaliðaverkefnið,“ segir Anna, forystukona sjálfboðaliðanna. „Margir lögðu verkefninu lið í fyrra en nú í sumar voru það aðallega Mýrdalshreppur, Framrás bifreiðaverkstæði (Bryndís Fanney Harðardóttir) og Gistiheimilið Guesthouse GALLERÍ ( Guðrún Sigurðardóttir) auk okkar góðu gesta sem eru með frjáls framlög.“ Þau eru afar þakklát fyrir þennan stuðning.

Stuðningur við sjálfboðaliðaverkefnið er hvatning til að halda því áfram á næstu árum.

Anna Björnsdóttir hefur tekið þátt í kirkjustarfi frá því hún var fjórtán ára gömul, stjórnað kórum barna og ungmenna, og nú eldri borgara.

Víkurkirkja var vígð 14. október 1934. Hún er steinsteypt og tekur 200 manns í sæti. Altaristöfluna málaði Brynjólfur Þórðarson. Kirkjan á marga fagra og gamla gripi.

Sr. Haraldur M. Kristjánsson, er sóknarprestur í Vík í Mýrdal.

Framtak sjálfboðaliðanna í Vík í Mýrdal er lofsvert og öðrum gott fordæmi.

Í kirkjunni eru steindir gluggar eftir Hrafnhildi Ágústsdóttur, glerlistakonu
Orgelið er smíðað af Katli Sigurjónssyni, frá Forsæti í Villingaholtshreppi

 

Kirkjan er björt og sviphrein

                                                               (Myndirnar tók Þórir Kjartanasson)

 


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju